Amos 1
1Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa, það er honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann. 2Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem. Þá munu hagar hjarðmannanna drúpa og Karmeltindur skrælna. 3Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Damaskusborgar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir þresktu Gíleað með þreskisleðum af járni, 4mun ég senda eld á hús Hasaels, og hann mun eyða höllum Benhadads. 5Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og útrýma íbúunum úr Glæpadal og þeim, er ber veldissprotann, frá Yndishúsum, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kír, _ segir Drottinn. 6Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Gasa vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir herleiddu heil þorp til þess að selja í hendur Edómítum, 7mun ég senda eld gegn múr Gasa, og hann mun eyða höllum hennar. 8Ég mun útrýma íbúunum úr Asdód og þeim, er ber veldissprotann, frá Askalon og því næst snúa hendi minni gegn Ekron, til þess að þeir, sem eftir eru af Filistum, skuli undir lok líða, _ segir Drottinn Guð. 9Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Týrusar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir seldu heil þorp í hendur Edómítum og minntust ekki bræðrasáttmálans, 10mun ég senda eld gegn múrum Týrusar, og hann mun eyða höllum hennar. 11Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Edómíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir eltu bræðraþjóð sína með sverði og kæfðu alla meðaumkun, svo að hatur þeirra sundurreif endalaust og þeir geymdu stöðuglega heift sína, 12mun ég senda eld gegn Teman, og hann mun eyða höllum Bosra. 13Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ammóníta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir ristu á kvið þungaðar konurnar í Gíleað til þess að færa út landamerki sín, 14vil ég kveikja eld í múrum Rabba, og hann skal eyða höllum hennar, þegar æpt verður heróp á orustudeginum, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna. 15Og konungur þeirra verður að fara í útlegð með hinum, hann og höfðingjar hans, _ segir Drottinn.
Copyright information for
Icelandic