Ezekiel 16
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2,,Mannsson, leið Jerúsalem fyrir sjónir svívirðingar hennar 3og seg: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Að uppruna og ætterni ert þú frá Kanaanlandi. Faðir þinn var Amoríti og móðir þín Hetíti. 4Og það er að segja af fæðing þinni, að þann dag, sem þú fæddist, var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú lauguð í vatni, ekki núin salti og ekki reifum vafin. 5Enginn renndi til þín meðaumkunarauga til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu og aumkast yfir þig, heldur var þér kastað út á víðavang _ svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist. 6Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: ,Þú, sem liggur þarna í blóði þínu, halt þú lífi!` 7Og þú óxt eins og grös vallarins, og þú stækkaðir og varðst mikil vexti og hin fríðasta sýnum. Brjóstin voru orðin stinn og hár þitt óx mjög, en þó varstu ber og nakin. 8Þá varð mér gengið fram á þig og ég sá þig, og var þá þinn tími ástarinnar tími. Ég breiddi yfir þig ábreiðu mína og huldi nekt þína, ég trúlofaðist þér og gjörði við þig sáttmála _ segir Drottinn Guð _ og þú varðst mín. 9Og ég laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig með olífuolíu. 10Og ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju. 11Ég skreytti þig skarti, spennti armbaugum um handleggi þína og festi um háls þinn. 12Ég lét á þig nefhring og eyrnagull og veglega kórónu á höfuð þér. 13Þú varst prýdd gulli og silfri, og klæðnaður þinn var úr hvítu líni, silki og glitvefnaði. Þú neyttir hveitimjöls, hunangs og olífuolíu, og þú varðst frábærlega fríð og komst jafnvel í konunglega tign. 14Og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, því að hún var fullkomin fyrir skart það, er ég hafði á þig látið _ segir Drottinn Guð. 15En þú reiddir þig á fegurð þína og hóraðist upp á frægð þína, og þú jóst hórdómi þínum út yfir hvern, sem fram hjá gekk. 16Og þú tókst nokkuð af fötum þínum og gjörðir þér mislitar fórnarhæðir, og þú drýgðir hórdóm á þeim. 17Og þú tókst skartgripina af gulli því og silfri, er ég hafði gefið þér, og gjörðir þér karlmannslíkneski af og drýgðir hórdóm með þeim. 18Og þú tókst glitklæði þín og lagðir yfir þau, og olíu mína og reykelsi settir þú fyrir þau. 19Og brauð mitt, það er ég hafði gefið þér, hveitimjölið, olíuna og hunangið, er ég hafði gefið þér að eta, það settir þú fyrir þau til þægilegs fórnarilms _ segir Drottinn Guð. 20Og þú tókst sonu þína og dætur, sem þú hafðir alið mér, og blótaðir þeim til fæðslu fyrir skurðgoðin. Var ekki hórdómur þinn nógur, 21þó að þú slátraðir ekki börnum mínum og gæfir þau skurðgoðum, með því að brenna þau þeim til heiðurs. 22Og í öllum svívirðingum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna, þá er þú varst ber og nakin og bröltir í blóði þínu. 23Og ofan á alla illsku þína, _ vei, vei þér! segir Drottinn Guð _, 24þá reistir þú þér hörga og hlóðst þér upp blótstalla á öllum torgum. 25Á öllum gatnamótum reistir þú þér blótstalla og ósæmdir fríðleik þinn og glenntir sundur fætur þína framan í hvern, sem fram hjá gekk. Og þú drýgðir enn meiri hórdóm: 26Þú drýgðir hórdóm með Egyptum, hinum hreðurmiklu nábúum þínum, og þú drýgðir enn meiri hórdóm, til þess að reita mig til reiði. 27Þá rétti ég út hönd mína á móti þér og minnkaði skammt þinn og ofurseldi þig græðgi fjandkvenna þinna, dætra Filista, sem fyrirurðu sig fyrir saurlífisathæfi þitt. 28Og þú drýgðir hórdóm með Assýríumönnum, án þess að fá nægju þína, þú hóraðist með þeim og fékkst þó ekki nægju þína. 29Og þú útbreiddir hóranir þínar til Kaldealands, og enn nægði þér ekki. 30Hversu brann hjarta þitt af girnd _ segir Drottinn Guð _ er þú framdir allt þetta, sem erkihóra mundi fremja, 31þá er þú reistir þér hörga á öllum gatnamótum og gjörðir þér blótstalla á öllum torgum. Og þó varst þú ekki eins og skækja, að þú hrúgaðir saman hvílutollum. 32Hórkona tekur aðra menn undir bónda sinn. 33Öllum skækjum er vant að greiða gjald, en þú þar á móti galtst öllum ástmönnum þínum kaup og ginntir þá með gjöfum til að koma til þín úr öllum áttum og fremja hórdóm með þér. 34Saurlifnaður þinn var með öðrum hætti en annarra kvenna. Menn hlupu ekki eftir þér til fylgilags, heldur greiddir þú friðilslaun, en þér voru engin laun goldin. Svo gagnstætt var þitt háttalag annarra kvenna. 35Heyr því orð Drottins, skækja! 36Svo segir Drottinn Guð: Af því að fúllífi þitt varð svo óstjórnlegt og blygðan þín var ber gjörð við saurlifnað þinn frammi fyrir friðlum þínum og frammi fyrir öllum hinum andstyggilegu skurðgoðum þínum og vegna blóðs barna þinna, er þú blótaðir þeim, _ 37fyrir því skal ég saman safna öllum friðlum þínum, þeim er þú varst geðþekk, og það öllum þeim, er þú elskaðir, ásamt öllum þeim, er þér geðjast ekki að. Þeim skal ég safna saman að þér úr öllum áttum og bera gjöra blygðan þína frammi fyrir þeim, svo að þeir sjái blygðan þína eins og hún er. 38Og ég mun láta sama dóm yfir þig ganga sem yfir hórkonur og þær, sem úthella blóði, og ég mun sýna þér heift og afbrýði. 39Og ég mun selja þig þeim í hendur og þeir munu rífa niður hörga þína og brjóta niður blótstalla þína og færa þig af klæðum þínum og taka af þér skartgripi þína og skilja þig eftir nakta og bera. 40Og þeir munu gjöra að þér mannsöfnuð, lemja þig grjóti og höggva þig sundur með sverðum sínum. 41Og þeir munu brenna hús þín í eldi og framkvæma refsingardóm á þér í augsýn margra kvenna, og þannig mun ég gjöra enda á hórdómi þínum, og þú munt eigi framar greiða nein friðilslaun. 42En ég mun stilla heift mína, og afbrýði mín við þig skal hverfa, og ég mun halda kyrru fyrir og ekki framar gremja geð mitt. 43Af því að þú minntist ekki bernskudaga þinna og reittir mig til reiði með öllu þessu, lét ég athæfi þitt þér í koll koma _ segir Drottinn Guð. Hefir þú ekki og framið þennan glæp ofan á allar svívirðingar þínar? 44Sjá, hver sá, er málsháttu tíðkar, mun um þig hafa málsháttinn: ,Mær er jafnan móður lík!` 45Þú ert dóttir móður þinnar, sem rak burt bónda sinn og börn sín, og þú ert systir systra þinna, sem ráku burt bændur sína og börn sín. Móðir yðar var Hetíti og faðir yðar Amoríti. 46Og eldri systir þín er Samaría og dætur hennar, hún býr þér til vinstri handar, og yngri systir þín, sú er býr þér til hægri handar, er Sódóma og dætur hennar. 47Að vísu gekkst þú ekki í fyrstu á þeirra vegum og framdir ekki aðrar eins svívirðingar og þær, en brátt gjörðist þú enn spilltari en þær í allri breytni þinni. 48Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sódóma systir þín og dætur hennar hafa ekki aðhafst slíkt sem þú og dætur þínar hafa aðhafst. 49Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb. Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd. 50Þær urðu drambsfullar og frömdu svívirðingar fyrir augum mér. Þá svipti ég þeim í burt, er ég sá það. 51Samaría hefir ekki drýgt helminginn af þínum syndum. Þú hefir framið miklu meiri svívirðingar en þær, og þann veg sýnt með öllum þeim svívirðingum, er þú hefir framið, að systur þínar eru betri en þú. 52Ber þú nú og sjálf smán þína. Þú sem hefir flutt málsvörn fyrir systur þínar með syndum þínum, er voru andstyggilegri en þeirra, svo að þær eru hátíð hjá þér. Skammastu þín því og berðu smán þína fyrir það, að þú hefir sýnt að systur þínar eru betri en þú. 53Ég mun snúa við högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar, og ég mun og snúa við högum þínum meðal þeirra, 54til þess að þú berir smán þína og skammist þín fyrir allt það, sem þú hefir gjört og með því orðið þeim til hugfróunar. 55Og systur þínar, Sódóma og dætur hennar, skulu aftur komast í sitt fyrra gengi, og Samaría og dætur hennar skulu og aftur komast í sitt fyrra gengi, og þú og dætur þínar skuluð aftur komast í yðar fyrra gengi. 56Og þó tókst þú ekki nafn Sódómu systur þinnar þér í munn á þínum ofdrambsdögum, 57þá er vonska þín var enn ekki ber orðin, eins og í þann tíð, er dætur Edóms smánuðu þig og allar dætur Filista, sem óvirtu þig úr öllum áttum. 58Fyrir saurlifnað þinn og svívirðingar, fyrir þær hefir þú gjöld tekið _ segir Drottinn. 59Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri við þig, eins og þú hefir gjört, þar sem þú hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann. 60En þó vil ég minnast sáttmála míns, þess er ég við þig gjörði á dögum æsku þinnar, og binda við þig eilífan sáttmála. 61Þá munt þú minnast breytni þinnar og blygðast þín, er ég tek eldri systur þínar og yngri og gef þér þær svo sem dætur, en ekki vegna sáttmála þíns. 62Og ég vil binda við þig sáttmála, og þú skalt viðurkenna, að ég er Drottinn, 63til þess að þú minnist þess og skammist þín og ljúkir eigi framar upp munni þínum sakir blygðunar, er ég fyrirgef þér allt það, sem þú hefir gjört _ segir Drottinn Guð.``
Copyright information for
Icelandic