Leviticus 8
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2,,Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum 3og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins.`` 4Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins. 5Móse sagði við söfnuðinn: ,,Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra.`` 6Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni. 7Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum. 8Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn. 9Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 10Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það. 11Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það. 12Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann. 13Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 14Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans. 15En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það. 16Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu. 17En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 18Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 19Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 20Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn. 21En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 22Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 23Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans. 24Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 25Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið. 26Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið. 27Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni. 28Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa. 29Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 30Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum. 31Og Móse sagði við Aron og sonu hans: ,,Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.` 32En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi. 33Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar. 34Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður. 35Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið.`` 36Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.
Copyright information for
Icelandic