1 Samuel 29
1Filistar drógu nú saman allan her sinn hjá Afek, en Ísrael setti herbúðir sínar við lindina hjá Jesreel. 2Og höfðingjar Filista komu með hundruð sín og þúsundir, og Davíð og menn hans komu síðastir með Akís. 3Þá sögðu höfðingjar Filista: ,,Hvað eiga þessir Hebrear hér að gjöra?`` Akís sagði við höfðingja Filista: ,,Það er Davíð, hirðmaður Sáls konungs í Ísrael, sem nú hefir með mér verið í tvö ár, og hefi ég ekki haft neitt út á hann að setja frá þeirri stundu, er hann gjörðist minn maður, og allt fram á þennan dag.`` 4Höfðingjar Filista reiddust honum og sögðu við hann: ,,Lát þú manninn hverfa heim aftur. Fari hann á sinn stað, þar sem þú hefir sett hann, en eigi skal hann með oss fara í bardagann, svo að hann snúist ekki á móti oss í orustunni. Með hverju gæti hann betur náð aftur hylli herra síns en með höfðum þessara manna? 5Var það ekki þessi sami Davíð, sem sungið var um við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?`` 6Þá lét Akís kalla Davíð og sagði við hann: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir ert þú ráðvandur, og ég uni því vel, að þú gangir út og inn með mér í herbúðunum, því að ég hefi ekki orðið neins ills var hjá þér frá þeirri stundu, er þú komst til mín, og allt fram á þennan dag, en höfðingjunum er ekki um þig. 7Hverf því aftur og far í friði, svo að þú gjörir ekki neitt það, sem höfðingjum Filista mislíkar.`` 8Þá sagði Davíð við Akís: ,,Hvað hefi ég þá gjört, og hvað hefir þú haft út á þjón þinn að setja, frá þeirri stundu, er ég gjörðist þinn maður, og allt fram á þennan dag, að ég skuli ekki mega fara og berjast við óvini herra míns, konungsins?`` 9Akís svaraði og sagði við Davíð: ,,Ég veit, að þú ert í mínum augum góður, sem værir þú engill Guðs, en höfðingjar Filista segja: ,Eigi skal hann með oss fara í bardagann.` 10Rís þú því árla á morgun, ásamt mönnum herra þíns, sem með þér komu, og farið þér þangað sem ég hefi sett yður, og ætlaðu mér ekkert illt, því að vel er mér til þín, _ og rísið þá árla á morgun og haldið af stað, þegar birtir.`` 11Reis nú Davíð árla um morguninn og menn hans og lögðu af stað heim aftur til Filistalands, en Filistar fóru upp í Jesreel.
Copyright information for
Icelandic