‏ 2 Chronicles 16

1Á þrítugasta og sjötta ríkisári Asa fór Basa Ísraelskonungur herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi. 2Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar og sendi Benhadad Sýrlandskonungi, er bjó í Damaskus, með þessari orðsending: 3,,Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér silfur og gull: Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér.`` 4Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og unnu þeir Íjón, Dan og Abel Maím og öll forðabúr í Naftalí borgum. 5Þegar Basa spurði það, lét hann af að víggirða Rama og hætti við starf sitt. 6En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum, og fluttu þeir burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti hann með þeim Geba og Mispa. 7En um þetta leyti kom Hananí sjáandi til Asa Júdakonungs og sagði við hann: ,,Sakir þess að þú studdist við Sýrlandskonung, en studdist ekki við Drottin, Guð þinn, sakir þess er her Sýrlandskonungs genginn þér úr greipum. 8Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við Drottin, gaf hann þá þér á vald. 9Því að augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann. Þér hefir farið heimskulega í þessu, því að héðan í frá munu menn stöðugt eiga í ófriði við þig.`` 10En Asa rann í skap við sjáandann og setti hann í stokkhúsið, því að hann var honum reiður fyrir þetta. Asa sýndi og sumum af lýðnum ofríki um þessar mundir. 11Saga Asa er frá upphafi til enda rituð í bókum Júda- og Ísraelskonunga. 12Á þrítugasta og níunda ríkisári sínu gjörðist Asa fótaveikur, og varð sjúkleiki hans mjög mikill. En einnig í sjúkleik sínum leitaði hann ekki Drottins, heldur læknanna. 13Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og dó á fertugasta og fyrsta ríkisári sínu. 14Og hann var grafinn í gröf sinni, er hann hafði látið höggva út handa sér í Davíðsborg. Og hann var lagður á líkbekk, er fylltur var kryddjurtum og alls konar smyrslum, blönduðum ilmreykelsi, og afar mikil brenna var gjörð honum til heiðurs.
Copyright information for Icelandic