2 Chronicles 18
1Jósafat hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd, og hann mægðist við Akab. 2Eftir nokkur ár fór hann á fund Akabs til Samaríu. Þá slátraði Akab fjölda sauða og nauta handa honum og mönnum þeim, er með honum voru, og ginnti hann að fara með sér til að herja á Ramót í Gíleað. 3Þá mælti Akab Ísraelskonungur við Jósafat Júdakonung: ,,Hvort munt þú fara með mér til Ramót í Gíleað?`` Hann svaraði honum: ,,Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð. Skal ég fara með þér til bardagans.`` 4Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: ,,Gakk þú fyrst til frétta og vit, hvað Drottinn segir.`` 5Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, fjögur hundruð manns, og sagði við þá: ,,Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?`` Þeir svöruðu: ,,Far þú, og Guð mun gefa hana í hendur konungi.`` 6En Jósafat mælti: ,,Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?`` 7Ísraelskonungur mælti til Jósafats: ,,Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur ávallt illu. Hann heitir Míka Jimlason.`` Jósafat sagði: ,,Eigi skyldi konungur svo mæla.`` 8Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: ,,Sæk sem skjótast Míka Jimlason.`` 9En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti, skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim. 10Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: ,,Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim.`` 11Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: ,,Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi.`` 12Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: ,,Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju.`` 13En Míka mælti: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Það sem Guð minn til mín talar, það mun ég mæla.`` 14Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: ,,Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?`` Þá sagði hann: ,,Farið, þér munuð giftudrjúgir verða, og þeir munu gefnir verða yður á vald!`` 15Þá sagði konungur við hann: ,,Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?`` 16Þá mælti hann: ,,Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín.`` 17Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: ,,Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér eigi góðu, heldur illu einu?`` 18Þá mælti hann: ,,Eigi er svo. Heyrið orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum. 19Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab Ísraelskonung til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt. 20Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?` 21Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti hann: ,Þú skalt ginna hann, og þér mun takast það. Far og gjör svo!` 22Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu.`` 23Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: ,,Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?`` 24Þá mælti Míka: ,,Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað.`` 25Þá mælti Ísraelskonungur: ,,Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni 26og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi.``` 27Þá mælti Míka: ,,Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn.`` Og hann mælti: ,,Heyri það allir lýðir!`` 28Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað. 29Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: ,,Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum.`` Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi, og gengu þeir í orustuna. 30En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu á þessa leið: ,,Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan!`` 31Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: ,,Þetta er Ísraelskonungurinn!`` og umkringdu hann til að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt, og Drottinn hjálpaði honum og Guð ginnti þá burt frá honum. 32Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann. 33En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi, og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusveininn: ,,Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár.`` 34Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og Ísraelskonungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og dó hann um sólsetur.
Copyright information for
Icelandic