Esther 3
1Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru. 2Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum. 3Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði, við Mordekai: ,,Hví brýtur þú boð konungs?`` 4Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur. 5Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði. 6En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai. 7Í fyrsta mánuðinum _ það er í mánuðinum nísan _ á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar. 8Og Haman sagði við Ahasverus konung: ,,Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa. 9Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs.`` 10Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga. 11Síðan sagði konungur við Haman: ,,Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar.`` 12Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs. 13Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _ og ræna fjármunum þeirra. 14Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag. 15Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa.
Copyright information for
Icelandic