Isaiah 14
1Drottinn mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús. 2Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum. 3Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð, 4þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja: Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn, hve hljótt í kvalastaðnum! 5Drottinn hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu, sprota yfirdrottnaranna, 6sem laust þjóðflokkana í bræði högg á högg ofan, og kúgaði þjóðirnar í reiði með vægðarlausri kúgan. 7Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við. 8Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér og sedrustrén á Líbanon: ,,Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga til þess að fella oss.`` 9Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna til þess að taka á móti þér. Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur, alla foringja jarðarinnar. Af hásætum sínum lætur hún upp standa alla þjóðkonunga. 10Þeir taka allir til máls og segja við þig: ,,Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér, orðinn jafningi vor! 11Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar, hreimnum harpna þinna! Ormar eru breiddir undir þig, og ábreiðan þín eru maðkar.`` 12Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna! 13Þú, sem sagðir í hjarta þínu: ,,Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri. 14Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta!`` 15Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar. 16Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér: ,,Er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungsríkin, 17gjörði jarðkringluna að eyðimörk, eyddi borgir hennar og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?`` 18Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir, hver í sínu húsi, 19en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni, eins og auvirðilegum kvisti. Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði, eins og fótum troðið hræ. 20Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir, hefir þú eigi samneyti, því að land þitt hefir þú eytt, myrt þjóð þína. Eigi skal nefnt verða að eilífu afsprengi illvirkjanna. 21Búið nú sonum hans rauðan serk sakir misgjörða feðra þeirra. Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina né fyllt jarðkringluna rústum! 22Ég vil rísa upp í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur _ segir Drottinn. 23Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar, segir Drottinn allsherjar. 24Drottinn allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá. 25Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra. 26Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum. 27Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur? 28Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist. 29Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki. 30Hinir allralítilmótlegustu skulu hafa viðurværi, og hinir fátæku hvílast óhultir, en rót þína vil ég með hungri deyða, og leifarnar af þér munu drepnar verða. 31Kveina, þú hlið! Hljóða þú, borg! Gnötra þú, gjörvöll Filistea! því að mökkur kemur úr norðurátt, í fylkingum hans dregst enginn aftur úr. 32Og hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar? Að Drottinn hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.
Copyright information for
Icelandic