Isaiah 24
1Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar. 2Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans. 3Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta. 4Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna. 5Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. 6Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið. 7Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir. 8Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður. 9Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur. 10Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist. 11Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn. 12Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin. 13Því að á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri. 14Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri. 15Vegsamið þess vegna Drottin á austurvegum, nafn Drottins, Ísraels Guðs, á ströndum hafsins! 16Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: ,,Dýrð sé hinum réttláta!`` En ég sagði: ,,Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!`` Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna. 17Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi. 18Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur. 19Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar. 20Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar. 21Á þeim degi mun Drottinn vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu. 22Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða. 23Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að Drottinn allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.
Copyright information for
Icelandic