Isaiah 5
1Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. 2Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga. 3Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! 4Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber? 5En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður. 6Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa. 7Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein. 8Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi. 9Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus. 10Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu. 11Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. 12Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki. 13Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta. 14Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað. 15Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút. 16En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi. 17Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta. 18Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum, 19þeim er segja: ,,Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við.`` 20Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku. 21Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti. 22Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk, 23þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra. 24Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael. 25Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt. 26Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá. 27Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra. 28Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur. 29Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað. 30Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.
Copyright information for
Icelandic