Jeremiah 40
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði látið hann lausan í Rama, er hann hafði flutt hann bundinn fjötrum ásamt hinum herteknu frá Jerúsalem og Júda, er flytjast áttu til Babýlon. 2Lífvarðarforinginn lét sækja Jeremía og sagði við hann: ,,Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu 3og lét hana fram koma, og Drottinn gjörði eins og hann hafði hótað, því að þér syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð eigi hans raustu, og fyrir því hefir yður þetta að höndum borið. 4Og sjá, nú leysi ég fjötrana af höndum þínum. Ef þér þóknast að koma með mér til Babýlon, þá kom þú og ég skal ala önn fyrir þér. En ef þér þóknast ekki að koma með mér til Babýlon, þá lát það ógjört. Sjá þú, allt landið liggur opið fyrir þér. Hvert sem þér líst gott og rétt að fara, þangað mátt þú fara. 5En ef þér þóknast að vera um kyrrt, skalt þú fara til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, er Babelkonungur hefir skipað yfir Júdaborgir, og ver með honum meðal lýðsins, eða far hvert sem þér þóknast að fara.`` Og lífvarðarforinginn fékk honum uppeldi og gjafir og lét hann í brott fara. 6Og Jeremía fór til Mispa til Gedalja Ahíkamssonar, og var með honum meðal lýðsins, þeirra er eftir voru í landinu. 7Og er allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti, og menn þeirra, fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið umsjá hans menn og konur og börn og þá af almúga landsins, er eigi voru herleiddir til Babýlon, 8fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa, og Jesanja, sonur Maakatítans, og menn þeirra. 9Vann Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, þeim eið og mönnum þeirra og sagði: ,,Óttist eigi að vera Kaldeum lýðskyldir. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna. 10Og sjá, ég verð kyrr í Mispa til þess að taka á móti þeim Kaldeum, er til vor kunna að koma, en safnið þér uppskeru af víni, ávöxtum og olíu og látið í ílát yðar og verið kyrrir í borgum yðar, er þér hafið tekið til eignar.`` 11Sömuleiðis fréttu allir Júdamenn, sem voru í Móab og hjá Ammónítum og í Edóm og í öllum öðrum löndum, að Babelkonungur hefði skilið leifar eftir af Júda og að hann hefði sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, yfir þá. 12Sneru þeir því aftur frá öllum þeim stöðum, þangað sem þeir höfðu hraktir verið, og komu til Júda, til Gedalja í Mispa, og þeir söfnuðu mjög mikilli uppskeru af víni og ávöxtum. 13Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti á landi, fóru til Mispa á fund Gedalja 14og sögðu við hann: ,,Veist þú að Baalis Ammónítakonungur hefir sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?`` En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki. 15Og Jóhanan Kareason sagði við Gedalja á laun í Mispa: ,,Leyf mér að fara og drepa Ísmael Netanjason, og enginn maður skal verða þess vís! Hví skal hann ráða þér bana og allir Júdamenn tvístrast, þeir er til þín hafa safnast, og leifar Júda verða að engu?`` 16En Gedalja Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: ,,Þú skalt ekki gjöra það, því að þú talar lygar um Ísmael.``
Copyright information for
Icelandic