‏ Job 37

1Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum. 2Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans. 3Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar. 4Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra. 5Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum. 6Því að hann segir við snjóinn: ,,Fall þú á jörðina,`` og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir. 7Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans. 8Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum. 9Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum. 10Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing. 11Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar. 12En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar. 13Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana. 14Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs. 15Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra og lætur leiftur skýja sinna skína? 16Skilur þú, hvernig skýin svífa, dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi, 17þú, sem fötin hitna á, þá er jörðin mókir í sunnanmollu? 18Þenur þú út með honum heiðhimininn, sem fastur er eins og steyptur spegill? 19Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann! Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri. 20Á að segja honum, að ég ætli að tala? Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur? 21Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið, sem skín skært að skýjabaki, en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt. 22Gullið kemur úr norðri, um Guð lykur ógurlegur ljómi. 23Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki. 24Fyrir því óttast mennirnir hann, en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.
Copyright information for Icelandic