Numbers 10
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2,,Gjör þér tvo lúðra af silfri. Með drifnu smíði skalt þú gjöra þá. Skalt þú hafa þá til að kalla saman söfnuðinn og þá er herinn tekur sig upp. 3Og þegar blásið er í þá báða, skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér fyrir dyrum samfundatjaldsins. 4En sé eigi blásið nema í annan þeirra, þá skulu foringjarnir koma til þín, höfuðsmenn Ísraels þúsunda. 5Þegar þér blásið hvellt, skal herinn, sem tjaldar að austanverðu, leggja upp. 6Og þegar þér blásið hvellt í annað sinn, skal herinn, sem tjaldar að sunnanverðu, leggja upp. Skal blása hvellt, þegar leggja skal upp. 7En þegar safna á saman söfnuðinum, skuluð þér blása, en þó eigi hvellt. 8Synir Arons, prestarnir, skulu blása í lúðrana, og skal það vera ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns. 9Þá er þér farið í stríð í landi yðar móti óvinum yðar, sem á yður herja, skuluð þér blása hvellt í lúðrana, og mun yðar minnst verða af Drottni, Guði yðar, og þér frelsaðir verða frá fjandmönnum yðar. 10Á gleðidögum yðar, á löghátíðum yðar og í mánaðarbyrjun skuluð þér og blása í lúðrana við brennifórnir yðar og heillafórnir, og skulu þeir vera yður til minningar frammi fyrir Guði yðar. Ég er Drottinn, Guð yðar.`` 11Á öðru ári, í öðrum mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins hófst skýið upp frá sáttmálsbúðinni. 12Tóku Ísraelsmenn sig þá upp eftir röð úr Sínaí-eyðimörk, og skýið nam staðar í Paran-eyðimörk. 13Þannig lögðu þeir upp í fyrsta skiptið að boði Drottins, er Móse flutti. 14Tók merki herbúða Júda sona sig fyrst upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Nakson Ammínadabsson. 15Og fyrir her ættkvíslar Íssakars sona var Netanel Súarsson. 16Og fyrir her ættkvíslar Sebúlons sona var Elíab Helónsson. 17Er búðin var ofan tekin, tóku Gersons synir og Merarí synir sig upp. Báru þeir búðina. 18Merki Rúbens herbúða tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísúr Sedeúrsson. 19Og fyrir her ættkvíslar Símeons sona var Selúmíel Súrísaddaíson. 20Og fyrir her ættkvíslar Gaðs sona var Eljasaf Degúelsson. 21Þá tóku Kahatítar sig upp. Báru þeir hina helgu dóma. En búðin skyldi sett upp, áður en þeir kæmu. 22Merki herbúða Efraíms sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísama Ammíhúdsson. 23Og fyrir her ættkvíslar Manasse sona var Gamlíel Pedasúrsson. 24Og fyrir her ættkvíslar Benjamíns sona var Abídan Gídeóníson. 25Merki herbúða Dans sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra. Fór það síðast allra herbúðanna, en fyrir her hans var Akíeser Ammísaddaíson. 26Og fyrir her ættkvíslar Assers sona var Pagíel Ókransson. 27Og fyrir her ættkvíslar Naftalí sona var Akíra Enansson. 28Þessi var röðin á Ísraelsmönnum eftir hersveitum þeirra, er þeir lögðu upp. 29Þá sagði Móse við Hóbab Regúelsson Midíaníta, tengdaföður Móse: ,,Vér leggjum nú upp áleiðis til þess staðar, sem Drottinn hét, að hann mundi gefa oss. Kom þú með oss, og munum vér gjöra vel við þig, því að Drottinn hefir heitið Ísrael góðu.`` 30Hóbab svaraði: ,,Eigi vil ég fara, heldur mun ég halda heim í land mitt og til ættfólks míns.`` 31En Móse sagði: ,,Eigi mátt þú yfirgefa oss, af því að þú veist, hvar vér getum tjaldað í eyðimörkinni, og skalt þú vera oss sem auga. 32Og farir þú með oss og oss hlotnast þau gæði, sem Drottinn vill veita oss, þá munum vér gjöra vel við þig.`` 33Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim. 34Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum. 35En er örkin tók sig upp, sagði Móse: ,,Rís þú upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og fjendur þínir flýi fyrir þér.`` 36Og er hún nam staðar, sagði hann: ,,Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels.``
Copyright information for
Icelandic