‏ Proverbs 17

1Betri er þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum. 2Hygginn þræll verður drottnari yfir spilltum syni, og hann tekur erfðahlut með bræðrunum. 3Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en Drottinn prófar hjörtun. 4Illmennið gefur gaum að fláræðis-vörum, lygin hlýðir á glæpa-tungu. 5Sá sem gjörir gys að fátækum, óvirðir þann er skóp hann, og sá sem gleðst yfir ógæfu, sleppur ekki óhegndur. 6Barnabörnin eru kóróna öldunganna, og feðurnir eru heiður barnanna. 7Ekki hæfa heimskum manni stóryrði, hve miklu síður göfgum manni lygavarir. 8Mútan er gimsteinn í augum þess er hana fær, hvert sem maður snýr sér með hana, kemur hann sínu fram. 9Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði. 10Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja. 11Uppreisnarmaðurinn hyggur á illt eitt, en grimmur sendiboði mun sendur verða móti honum. 12Betra er fyrir mann að mæta birnu, sem rænd er húnum sínum, heldur en heimskingja í flónsku hans. 13Sá sem launar gott með illu, frá hans húsi víkur ógæfan eigi. 14Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst. 15Sá sem sekan sýknar, og sá sem saklausan sakfellir, þeir eru báðir Drottni andstyggð. 16Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans til þess að kaupa speki, þar sem vitið er ekkert? 17Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir. 18Óvitur maður er sá, er til handsala gengur, sá sem gengur í ábyrgð fyrir náunga sinn. 19Sá elskar yfirsjón, sem þrætu elskar, sá sem háar gjörir dyr sínar, sækist eftir hruni. 20Rangsnúið hjarta öðlast enga gæfu, og sá sem hefir fláráða tungu, hrapar í ógæfu. 21Sá sem getur af sér heimskingja, honum verður það til mæðu, og faðir glópsins fagnar ekki. 22Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin. 23Hinn óguðlegi þiggur mútur á laun til þess að beygja leiðir réttvísinnar. 24Hygginn maður hefir viskuna fyrir framan sig, en augu heimskingjans eru úti á heimsenda. 25Heimskur sonur er föður sínum til sorgar og þeirri til angurs, er ól hann. 26Það eitt að sekta saklausan er ekki gott, en að berja tignarmenni tekur þó út yfir. 27Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur. 28Afglapinn getur jafnvel álitist vitur, ef hann þegir, hygginn, ef hann lokar vörunum.
Copyright information for Icelandic