Zechariah 6
1Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll. 2Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar, 3fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar. 4Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: ,,Hvað merkir þetta, herra minn?`` 5Engillinn svaraði og sagði við mig: ,,Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað. 6Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá.`` 7Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: ,,Farið! Farið um jörðina!`` Og þeir fóru um jörðina. 8Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: ,,Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá.`` 9Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi: 10Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon. 11Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests. 12Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins. 13Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja. 14En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins. 15Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.
Copyright information for
Icelandic